3 EINFALDAR LEIÐIR TIL AÐ SKAPA TENGINGU BARNA OG FORELDRA

Við viljum flest að börnin okkar verði að góðhjörtuðum og kurteisum einstaklingum. Á sama tíma viljum við ala upp sterka einstaklinga sem ná árangri í lífinu. Vertu ákveðin en ekki vera frekja. Sýndu virðingu en ekki láta vaða yfir þig. Vertu sjálfstæður einstaklingur en hlýddu mér samt. Togstreitan er endalaus. 

Sem foreldri finn ég fyrir þessari togstreitu daglega. Sem þjálfari reyni ég stanslaust að finna leiðir til þess að byggja börnin mín upp og bæta samskipti mín við þau. Ég er nefnilega sú sem þarf að bera ábyrgð á því að samskiptin séu góð. Ég er með fullan heilaþroska, ekki þau. Ég get ekki lagt það á þau að þurfa að vera góð í samskiptum, en ég get svo sannarlega sýnt þeim frábær samskipti og verið fyrirmynd sem þau læra af. Orð kenna ekki, en gjörðir gera það. 

Mitt markmið er að eiga þannig tengingu við börnin mín að þau muni leita til mín og treysta því að ég hafni þeim ekki þegar þau eru unglingar að vesenast með lífið. Ég er langt frá því að vera fullkomin, en sem mikil áhugamanneskja um heilbrigð samskipti og uppbyggingu barna skil ég hér eftir 3 atriði sem ég tek eftir að skapi tengingu: 

1. HORFÐU Í AUGUN Á BARNINU

Einhvernvegin verðum við fullorðna fólkið að temja okkur þann sjálfsaga að vera ekki límd við símann fyrir framan börnin okkar. Sérstaklega þegar þau eru að vera hreint og beint óþolandi, því þá þurfa þau mest á athyglinni að halda. Ég heyrði einhversstaðar að það væri ekki lengd tímans sem við verjum með börnunum okkar sem skipti mestu máli, heldur gæði tímans. Þetta á vel við hér. Þegar við horfum í augun á barninu og virkilega sýnum áhuga á því sem barnið er að gera eða segja, þá skynjar barnið raunverulega nærveru og nærist almennilega á athyglinni. Foreldrið upplifir núvitund í augnablikinu og allir vinna. 

 

2. VERTU DÓMLAUS Á SJÓNARHORN BARNSINS

Ég geri mér fulla grein fyrir því að börn gera og segja allskonar vitleysu. Börn springa oft úr tilfinningum og stundum yfir einhverju sem skiptir bara engu máli. Bananahýðið datt af banananum og þá er ekki hægt að borða hann. Hræðilegt. Eða að sokkurinn snýr tvær gráður í vitlausa átt og þá er auðvitað ekki hægt að fara í afmælið eins og planið var. Þessari upplifanir virðast svo gjörsamlega úti á túni fyrir okkur fullorðna fólkið en fyrir barnið er þetta blákaldur veruleikinn og alveg hrikalega erfitt í augnablikinu. Þá er okkar verk að sýna sjónarhorni barnsins skilning, halda ró og tala barnið í gegnum tilfinninguna. 

 

DÆMI 

Barn: "ÉG ÆTLA EKKI Í AFMÆLIÐ, SOKKURINN ER VITLAUS OG ÞIÐ ERUÐ ÖLL ÖMURLEG" 
 
Foreldri: "Úff, ég sé að þú ert mjög ósáttur. Sokkurinn er óþægilegur og þú vilt það alls ekki."

Barn: "NEI OG ÉG ÆTLA EKKI Í ÞETTA ÖMURLEGA AFMÆLI" 

Foreldri: "Ég heyri að þig langar ekki í afmælið."

Barn: "NEI OG SOKKURINN ER VITLAUS" 

Foreldri: "Akkúrat, ég sé að þú ert mjög ósáttur við að vera í þessum sokk."

Barn (vonandi aðeins að spegla kyrrðina þína ef þú náðir að halda ró): "Já það er mjög óþægilegt þegar hann snýst svona" 

Foreldri: "Já ég skil það mjög vel, maður vill vera í þægilegum sokkum! Ég er alveg sammála. Farðu bara úr þessum pirrandi sokk. Eigum við að finna aðra sokka eða viltu kannski byrja á að fá bara smá knús? Auðvitað langar manni að líða vel áður en maður fer í afmæli." 

Barnið þiggur vonandi knúsið og foreldri heldur ennþá ró. Ég veit að þetta er mjög einfalt dæmi og svona samtöl taka oft mislangan tíma.

Með þessu dæmi undirstrikum við samt meginpunktinn: að sýna sjónarhorni barnsins skilning, dómlaust. Það er ekki okkar að dæma hversu miklu máli þetta atvik skiptir barnið. Ef barnið springur úr tilfinningum, er öruggt að segja að skilningur skiptir barnið miklu máli, sama hversu súrealískt dæmið er. Við viljum öll vera séð og heyrð. Það vill enginn upplifa sig eins og vitfirrtan, snaróðan tilfinningavilling. Ekki fullorðnir og ekki börn heldur.

Þess vegna er mikilvægt að við fullorðna fólkið nýtum eigin heilaþroska í að hjálpa barninu í gegnum upplifunina. Kannski verðið þið sein í afmælið... en barnið upplifði tengingu við þig og þú ert að byggja upp sterkt samband við barnið þitt. Stórkostlegt. Það skiptir máli. 


3. HLÆGIÐ SAMAN

Rannsókn sem var gerð við Háskóla í Norður Karólínu sýndi þær niðurstöður að þegar fólk hlær saman líkar þeim betur við hvort annað. Rannsakendur nefna að fólk í sambandi ætti að finna tækifæri til að hlægja saman til að færast nær hvort öðru andlega, sérstaklega fyrir erfið samtöl þar sem hnökrar gætu komið upp. Rannsakendur lýsa því líka að hlátur á vinnustað geti komið fólki á sömu blaðsíðu og að teymi sýni þar af leiðandi meiri framtakssemi. Þetta er vel hægt að færa yfir á samband barna og foreldra. Við viljum vera á sömu blaðsíðu. Við viljum færast nær hvort öðru. Við viljum geta komist í gegnum erfið samtöl með skilning og ró. 

Hugmyndir til þess að koma hlátrinum í gang: 

- Þið gætuð prófað að mynda skrítin hljóð með röddinni
- Þið gætuð farið í grettukeppni
- Stundum hlusta ég á prumpuhljóð á Spotify með börnunum mínum, það er nóg að skrifa inn "fart sounds" og það koma upp heilu klukkutímarnir af prumpi
- Þið gætuð fundið fyndin video af dýrum að gera allskonar vitleysu á youtube
- Sumum finnst gaman í kítlustríði  (öðrum finnst það alls ekki skemmtilegt og við pössum að pína engann í svoleiðis) 

Allar hugmyndirnar henta auðvitað ekki öllum aldurshópum en það er alltaf hægt að finna eitthvað við hæfi. Þó að þér finnist ekki neitt af þessu fyndið, er vel hægt að treysta á það að barnið fari að hlægja innilega. Þá getur þú í einlægni horft á barnið þitt hlægja, fundið gleðina í því og á endanum leyft þér að smitast og hlægja með barninu. 

 

Með þessum leiðum vinnum við okkur inn heimild í tengslabankann við barnið okkar. Auðvitað er þetta dagleg vinna og dagarnir eru mismunandi, það vita allir foreldrar og forráðamenn. En heimildin er alltaf að hækka og þannig styrkjast líkurnar á því að vel gangi í framtíðinni ykkar á milli. 

Back to blog

Leave a comment

Please note, comments need to be approved before they are published.